Tuesday, 12 May 2009

Facebook

Farinn á facebook.

Friday, 17 April 2009

KIWI

Nýsjálendingar eru kallaðir Kiwi, orðið er úr Maori málinu og er líka nafnið á þjóðarfugli New Zealand.

Þetta er Kiwi fuglinn: Ég veit ekki hvort þetta á eitthvað skylt við ávöxtinn kiwi, en mér finnst fuglinn minna svolítið á ávöxtinn.
Kiwi fuglinn finnst hvergi nema í New Zealand og er friðaður, hann var í útrímingarhættu vegna þess að hann getur ekki flogið (furðufugl) og er auðveld bráð fyrir rándýr.
Áður en mannfólkið kom til NZ voru þar heldur engin rándýr og það er talið að Kiwi fuglinn hafi misst flughæfileikana vegna þess að hann þurfti ekki á þeim að halda.
Það var svo rólegt áður en menn og rándýr komu til landsins.

Sunday, 5 April 2009

Morgunsúr málari, með morð í huga.

Ég keyri á hverjum degi til Horsens, sem eru um 30 km.
Á morgnanna fer ég "landevejen" í staðinn fyrir hraðbrautina, því það er svo mikil umferð þar milli 7 og 8, þegar ég er á ferðinni.
Ég keyri nú yfirleitt ekki á löglegum hraða, því mér finnst þetta taka of langan tíma.
Landevejen er á löngum kafla það breiður að auðvelt er að fara framúr, jafnvel þó bílar komi á móti. Ég notfæri mér það, án þess þó að taka óþarfa sénsa, ég vil helst komast lifandi alla leið.
Einn morguninn var ég um það bil að taka framúr, búinn að gefa stefnuljós og við það að fara inn á miðjann veginn. Þá kemur bíll á þvílíkri siglingu aftan við mig og hreinlega þröngvar sér fram fyrir. Það voru bílar að koma á móti og ef ég hefði ekki sveigt til baka, þá hefði þessi bíll lent á þeim eða mér, eða hvortveggja.
Þetta var svona sendibíll, kyrfilega merktur málarafyrirtæki.
Ég keyri bara áfram og fer framúr nokkrum bílum eins og ég er vanur. Síðan kemur stuttur kafli á veginum þar sem eru 2 akreinar, þar nota ég alltaf tækifærið og fer framúr. Í þetta skipti næ ég að fara framúr 5 bílum áður en þessi tveggja akreina kafli endar.
Nema hvað, fremstur af þessum bílum er málarabíllinn og ekki hélt ég að fullorðnir menn yrðu fúlir vegna framúraksturs, en málarinn var eitthvað illa fyrirkallaður þennan morgun.
Það skiptir engum togum að hann keyrir alveg upp að mér og ég sé í baksýnisspeglinum að málarinn heldur á síma í vinstri hendi og sígarettu í hægri. Hann kemur svo þétt upp að mér að ég finn reykingalyktina af honum, en ekki nóg með það , heldur keyrir hann aftan á mig, ekki neitt rosalega, en nóg til að ég bæði finn það og heyri að bílarnir snertast.
Mér er nú orðið ljóst að maðurinn gengur ekki heill til skógar og hægi á ferðinni og ætla að stoppa úti í vegarkantinum. Ég býst við að hann geri það sama, enda er það venjan að menn ræði saman ef þeir lenda í árekstri.
Hann er hinsvegar ekki á því og brunar bara framhjá mér eins og ekkert hafi í skorist.
Ég viðurkenni að það fauk svolítið í mig, enda ekki á hverjum degi sem einhver keyrir á mig viljandi og stingur síðan af.
Ég var að hugsa um að elta hann uppi, en ákvað að gera það ekki, því það hefði sennilega endað með slagsmálum, þessi maður var örugglaga ekki viðræðuhæfur.
Ég var líka að hugsa um að kæra manninn til lögreglunnar, en hætti við það. Hann hefði örugglega neitað öllu og það sá ekkert á bílnum hjá mér vegna þess að hann er með dráttarkrók, sem betur fer.
Eins og fyrr sagði var málarabíllinn vel merktur og það var auðvelt fyrir mig að fara á netið og finna heimilisfangið, sem reyndist vera í heimahúsi.
Ég fór síðan um kvöldið með stærsta eldhúshnífinn og skar á öll dekkin á málarabílnum. Það þarf að taka svona menn úr umferð og duga engin vettlingatök. Nei nei, auðvitað gerði ég það ekki.
Það er alveg ljóst að ef ég þarf á málara að halda, þá verður það ekki þessi.

Sunday, 29 March 2009

Undirbúningur


Hér ætla ég að vera með einhverskonar ferðasögu fyrir þá sem vilja fylgjast með mér hinumegin á hnettinum.
Mér þykir rosalega gaman að taka myndir og mun reyna að setja inn hér slatta af þeim þegar þar að kemur.
Það er næstum ár síðan ég fékk þá hugmynd að fara til New Zealand og nú er mánuður þangað til ég fer. Það er þó nokkur undirbúningur fyrir svona ferðalag, margt sem þarf að gera og tekur tíma að koma öllu á hreint. Sérstaklega vegna þess að ég ætla mér að vera þarna í 8 mánuði eða svo.
Ég er kominn með landvistarleyfi, húsnæði og flugið er bæði bókað og borgað. Það þarf að sækja um landvistarleyfi ef dvölin í landinu á að vera lengri en 3 mánuðir.

Ég skrifa allavega einu sinni í viku hér þangað til ég fer, en vonandi meira eftir að ég er kominn "down under", þá verður væntanlega meira að segja frá.

Tuesday, 3 March 2009

TEST


Bara að prófa þetta.
Sjá hvernig þetta lítur út.

Þarf að laga þetta aðeins til.

Hef auga með þessu.